Úrvinnsla umsókna í SK
Hvernig er ákveðið hverjir komast inn í Skólahljómsveitina?
Við því er ekkert eitt svar því það eru svo margir þættir sem spila þar inn í.
Við byrjum yfirleitt á því að taka inn á þau hljóðfæri þar sem umsóknir eru fæstar. Vorið 2021 komust til dæmis allir inn sem sóttu um á horn sem fyrsta val. Við vinnum okkur síðan upp listann og höfum ýmis atriði í huga:
Við reynum að jafna kynjahlutföllin í sveitinni með því að taka nokkuð jafnt inn af strákum og stelpum. Einnig horfum við til þess að jafna kynjahlutföll á hverju hljóðfæri fyrir sig. Stundum eru allir umsækjendur á ákveðin hljóðfæri af sama kyni og þá hallar á annaðhvort kynið.
Við reynum að jafna nemendum milli skólahverfa, þannig að allir grunnskólar bæjarins eigi fulltrúa hjá okkur og reynum því að fjölga nemendum úr þeim skólum sem eiga fáa fulltrúa.
Með það að markmiði að koma sem flestum inn í tónlistarskóla bæjarins reynum við að fylgjast með því að sami nemandi taki ekki pláss í tveimur tónlistarskólum. Okkur þykir óréttlátt að einhverjir nemendur fái tvö námspláss á meðan aðrir fá ekkert. Þannig tökum við síður inn nemendur sem eru þegar í öðru tónlistarnámi.
Eldri nemendur sem eru að flytja í bæinn og hafa verið í tónlistarnámi annars staðar njóta ákveðins forgangs, þó almennt sé miðað við að börn byrji hjá okkur um haustið þegar þau byrja í 4. bekk.
Einnig grípum við til þess að láta hlutkesti ráða um laus pláss.
Þau sem eru á biðlista frá fyrri árum og staðfesta áhuga sinn á inngöngu eru sömuleiðis framarlega í flokki, án þess þó að njóta fullkomins forgangs.
Erfiðast er alla jafna að komast inn á þverflautu og trommur af öllum hljóðfærunum sem við bjóðum upp á og einnig er mikil aðsókn rafbassanám. Því eru meiri líkur á að komast inn í SK með því að sækja um á önnur hljóðfæri.
Við reynum okkar besta til að gera ekki upp á milli umsækjenda og leggjum okkur fram við að koma sem flestum í tónlistarnám hjá okkur. Við höfum þó takmarkaðan fjölda plássa og getum því ekki tekið alla inn, sem þó væri óskastaðan. Oft losna einhver pláss strax að hausti hjá okkur svo þeir sem ekki komust inn í fyrstu tilraun gætu komist inn þá. Síðan losna alltaf nokkur pláss til viðbótar yfir veturinn og þá tökum við inn nemendur af biðlistanum. Alls er pláss fyrir 175 nemendur hjá Skólahljómsveitinni.
Að þessu sögðu er ljóst að það getur verið mikið happdrætti að komast að hjá Skólahljómsveit Kópavogs. Okkur er líka mikið í mun að þeir sem ekki komast að í fyrstu tilraun líti ekki á það sem höfnun frá okkur. Við þurfum á hverju ári að neita mörgum umsækjendum um skólavist og vitum að í þeim hópi eru margir duglegir krakkar og efnilegir tónlistarmenn. En á meðan plássin eru ekki fleiri en þau eru og umsóknirnar jafn margar og raun ber vitni, verður þetta því miður að vera svona.