Skip to main content Skip to footer

Hljóðfæraleigusamningur

Skólahljómsveit Kópavogs (SK) leggur hljóðfæranemandanum til hljóðfæri á meðan hann er í námi hjá hljómsveitinni eða þar til hann/hún/hán eignast sitt eigið hljóðfæri. Forráðafólk nemandans (leigutaki) bera ábyrgð á hljóðfærinu á meðan á leigutíma stendur og ábyrgjast að vel sé farið með hljóðfærið og að leiðbeiningum kennara um meðhöndlun þess sé fylgt. Leigutaka er óheimilt að annast sjálfur viðgerðir á hljóðfærinu.
 
Leigugjald sem leigutaki greiðir SK er hugsað til að standa straum af kostnaði við eðlilegt viðhald hljóðfærisins og endurnýjun þess. Eðlilegt viðhald   telst vera það viðhald sem leiðir af venjulegri notkun hljóðfærisins, t.d. endurnýjun á púðum og korkum á tréblásturshljóðfærum, endurnýjun á ventlum og vatnsventlum á málmblásturshljóðfærum og endurnýjun á skinnum á slagverkshljóðfærum. Minniháttar skemmdir sem orsakast af eðlilegri notkun hljóðfærisins í samspilstímum og á tónleikum sveitarinnar flokkast einnig sem eðlilegt viðhald.
 
Leigutaki ber þann kostnað sem verður til vegna viðgerða á hljóðfærinu sem rekja má til rangrar meðhöndlunar eða gáleysis. Dæmi um það er þegar hljóðfæri dettur í gólfið og skemmist eða að einhver hlutur fellur á hljóðfæri sem ekki hefur verið gengið réttilega frá.
 
Ef hljóðfæri týnist eða því er stolið á meðan það er í umsjón SK á æfingum, tónleikum eða flutningum á milli staða, ber SK þann skaða. Að öðru leyti ber leigutaki ábyrgð á hljóðfærinu og skal bæta það annaðhvort með sambærilegu hljóðfæri eða greiðslu upphæðar sem nemur sanngjörnu kaupverði hljóðfæris af sambærilegri gerð.
Vinsamlegast athugið að venjulegar heimilistryggingar ná yfirleitt ekki yfir leiguhljóðfæri en hægt er í sumum tilfellum að tryggja það sérstaklega.
 
Nokkrir góðir punktar til að hafa í huga:
  • Fylgið alltaf leiðbeiningum kennara um meðhöndlun hljóðfærisins.
  • Leyfið aldrei neinum að “prófa” hljóðfærið sem ekki hefur sjálfur lært rétta meðhöndlun þess.
  • Skiljið hljóðfærið aldrei eftir þar sem það gæti orðið fyrir skaða.
  • Skiljið hljóðfærið aldrei eftir án umsjónar þar sem því gæti verið stolið.
  • Geymið hljóðfærið alltaf í hljóðfæratöskunni þegar það er ekki í notkun.
  • Munið að loka hljóðfærakassanum tryggilega áður en hann er tekinn upp.
  • Þrífið hljóðfærið reglulega, strjúkið burt ryk og vætu, smyrjið það sem smyrja á og gætið þess að hafa hljóðfærið alltaf í topp standi.
  • Reynið aldrei að gera sjálf við hljóðfæri í eigu SK. Það er vandasamt verk og eingöngu á færi lærðra viðgerðarmanna. Röng meðhöndlun hljóðfæra getur valdið varanlegum skaða.
 
 
Rísi ágreiningur milli SK og leigutaka um hvað teljist eðlilegt viðhald skulu til þess bærir aðilar fengnir til að skera úr þeim ágreiningi.
 
Með því að senda inn umsókn um nám í SK samþykkir forráðafólk nemandans þessa skilmála. Samningur þessi gildir um öll hljóðfæri sem nemandi fær á leigu hjá SK, frá þeim degi þegar fyrsta hljóðfæri er tekið á leigu og til þess tíma að hljóðfæranemandi hefur skilað öllum hljóðfærum sem SK hefur lagt honum til. Kennarar og stjórnendur SK sjá um að skrá öll leiguhljóðfæri í SpeedAdmin og þar getur forráðafólk nálgast upplýsingar um leiguhljóðfæri síns barns.